Alkort

Spilarar eru fjórir og spila tveir og tveir saman. Spilin hafa óvenjuleg gildi og geta sjöur verið hæstar. Gildi spila tengist ekki lit. Markmiðið er að vinna slagi.

Búbbla eða skeið

Markmið leiksins er að safna fjórum eins spilum (fernum). Sá sem er síðastur til að taka eftir því að einhver hefur blásið út kinnarnar fæ fyrsta bókstafinn í orðinu ,,búbbla“ og svo næsta ef þetta gerist aftur. Sá vinnur leikinn sem síðastur er til að mynda orðið ,,búbbla.“

Forseti

Spilarar reyna að losa sig við öll sín spil með því að setja þau í kastbunka og eiga spilin að vera jafnhá eða hærri en spilið sem er efst í kastbunkanum. Spilarar skiptast á ákveðnum spilum í lok umferðar.

Félagsvist

Spil þar sem spiluð er vist á mörgum borðum og sitja fjórir við hvert borð. Sigurvegarar flytjast milli borða eftir ákveðnum reglum og sá sem hefur flest stig eftir ákveðinn fjölda leikja ber sigur úr býtum.

Gúrka

Spil sem gengur út á að enda með sem lægst spil á hendi í lok hverrar umferðar. Sá sem endar með hæsta spilið leggur það til hliðar og eru spilin talin í lok hverrar umferðar. Þegar stigin fara yfir 21 hefur spilarinn tapað. Sá vinnur sem stendur einn eftir.

Hæ gosi

Tveir spilarar skipta bunkanum milli sín og leggja svo til skiptis í bunka fyrir framan sig. Þegar tía, gosi, drottning, kóngur eða ás koma upp eru gefin ákveðin merki.

Kani

Fjögurra manna spil þar sem tveir og tveir spila saman. Sá sem treysti sér til þess að taka flestu slagina reynir við það ásamt félaga sínum en hinir reyna að fella.

Kleppari

Tveggja manna spil sem gengur út á það að klára spilin sín. Spilunum er skipt í tvennt og svo verður til kastbunki fyrir hvorn um sig. Spilari reynir svo að rekja röð upp og niður í kastbunkann.

Kóngur úti í horni

Spilarar fá átta spil á hendi. Bunki er settur á borðið og tvö spil sitt hvoru megin við hann; alls fjögur spil. Spilarar rekja spil sín á þau og er markmiðið að losna við öll spil á hendi.

Langavitleysa

Tveggja manna spil þar sem menn hafa sitt hvorn bunkann og leggja niður spil í sameiginlegan bunka á miðju borðs. Sá tapar sem klárar spilin sín.

Lauma

Fjögurra til tíu manna spil þar sem tilgangurinn er að safna fimm spilum í sömu sort og skiptast á spilum við borðfélaga sína með því að renna þeim til þeirra, eða ,,lauma" þeim.

Manni

Þriggja manna spil sem gengur út á að fá sem flesta slagi. Gefið er í fjóra bunka og er fjórði bunkinn kallaður manni. Einn spilari getur skipt út spilum sínum fyrir mannann.

Manni önnur útgáfa

Þriggja manna spil þar sem sá sem á sögnina hefur fyrstur val um að skipta út spilum sínum. Sá sem á sögnina þarf að ná átta slögum.

Merki

Fjögurra manna spil þar sem tveir og tveir spila saman og reyna að safna fjórum eins spilum. Þeir gefa svo hvor öðrum merki um að þeir séu komnir með spilin og slá síðan annarri höndinni á annan af tveimur bunkum sem liggja á borðinu.

Ólsen ólsen upp og niður

Spilarar fá fimm spil á hendi og reyna svo að losa sig við öll spilin með því að leggja þau ofan á spil í borði, annað hvort einu spili ofar eða einu spili neðar.

Pakk

Tveir og tveir spila saman og safna slögum. Hvort par um sig kemur sér saman um leynimerki. Þegar félagi þess sem er kominn með slag sér merki segir hann: Pakk! Mótherjapar reynir að sjá leynimerkið og vinna stigið í staðinn.

Póker

Fjárhættuspil sem gengur út á að vinna peningapott. Spilarar reyna að mynda sem besta samsetningar spila og vinna peningapott. Hér má sömuleiðis sjá mögulegar pókerhendur og styrkleika þeirra.

Rommí

Spil fyrir tvo til sex þar sem hver og einn reynir að setja saman raðir eða samstæður og loka síðan spilinu.

Skítakall

Skítakall er einfalt spil fyrir tvo eða fleiri. Takmarkið er að vera fyrstur að losna við öll spil í borði þegar bunkinn klárast.

Tuttuguogníu

Spilarar leggja út spil og segja summu spilanna er komin eru í borðið. Summan má ná 29 en má ekki fara yfir þá tölu. Markmið spilins er að safna sem flestum slögum.

Ólsen ólsen

Ólsen ólsen er spil fyrir tvo til fimm spilara sem gengur út á að klára spilin sín á undan hinum og klykkja út er síðasta spil er látið út: Ólsen ólsen!

Svarti Pétur

Barnaspil fyrir tvo til tíu. Spilarar draga spil hver frá öðrum og henda samstæðum í spilahrúgu. Markmiðið er að enda ekki með spaðagosann og verða Svarti Pétur.

Veiðimaður

Barnaspil fyrir tvo til fimm spilara. Markmiðið er að safna samstæðum fjögurra spila og biðja spilarar hver annan um spil og draga spil úr spilahrúgu. Sá vinnur sem fær flestu slagina.

Vist

Fjögurra manna spil þar sem tveir og tveir spila saman og reyna að safna sem flestum slögum.

Þjófur

Tveggja manna spil sem gengur út á að hirða spil úr borði og sömuleiðis stokk andstæðingsins. Þegar maður tekur stokkinn kallast það að stela og þar með er maðurinn orðinn þjófur.