Alkort

4 spilarar

Gögn

Spilastokkur, blað og blýantur.

Spilagjöf

Fimmur og tíur eru tekin úr stokknum þannig að eftir verða 44 spil. Spilarar eru fjórir og spila tveir og tveir saman. Til að komast að því hverjir spila saman draga allir spilarar spil og eiga þeir að spila saman sem fá hæsta og lægsta spilið.

Gjafari gefur spilurum þrjú spil á mann og heldur gjöfinni áfram þar til hver og einn er búinn að fá níu spil. Þau átta spil sem eftir eru mynda stokk sem gjafari leggur á borðið hjá sér.

Gildi spilanna er öðruvísi en venjan er og hafa litir til dæmis engin áhrif.

Gildi spilanna eru þessi frá hæsta spili til lægsta: Tígulkóngur, hjartatvistur, lauffjarki, spaðaátta, hjartanía, tígulnía, ásar, gosar og sexin.

Sjöin, sem eru líka kölluð bísefar eða besefar, hafa sérstöðu þar sem þau styrkjast eftir unnin slag en hafa annars ekkert gildi.

Framgangur spilsins

Eftir að spilagjöf er lokið skoða spilarar gildi þeirra spila sem þeir hafa. Ef þeir hafa spil á hendi sem hafa gildi segja spilarar að þeir eigi ekki rétt á stokknum. Ef spilari hefur hins vegar ekkert spil á hendi sem hefur gildi má hann taka stokkinn.

Sá spilari sem er í forhönd byrjar spilið og vinnur með félaga sínum að því að fá sem flesta slagi, áður en hitt parið nær að fá slag. Nú skal hafa í huga hvert gildi spilanna er. Eftir að fyrsti slagurinn er kominn breytast bísefarnir (sjöurnar) þannig að þær fá hæsta gildið í spilinu og eru því ódrepandi. Hafi spilari ekki unnið slag hafa sjöurnar ekkert gildi og gildir einu þótt félaginn hafi unnið slag.

Ef spilapar fær fimm slagi í röð þá kallast það múkur (að múka) og fá spilarar fimm stig fyrir það. Ef parið fær sex slagi eða fleiri gera þeir stroku. Ef slagirnir verða jafnvel fleiri er talað um sexblaðastroku upp í níublaðastroku, allt eftir fjölda slaga. Eitt stig bætist við fyrir hvern slag. Ef mótspilurum tekst að slíta með því að fá slag verður hvorki múkur né stroka. Ef mótspilurum tekst síðan að fá fimm slagi hafa þeir unnið það spil og fá eitt prik. Það par vinnur sem fær fleiri prik.