Rommí

2 - 6 spilarar

Spilagjöf

Heppilegasti spilarafjöldi er fjórir og fleiri þótt allt niður í tvo geti spilað. Ásinn er lægstur og kóngurinn er hæstur.

Dregið er um hver skuli gefa og er síðan gefið réttsælis, eitt spil í einu. Þegar tveir spila fær hvor um sig tíu spil. Þegar þrír eða fjórir spila fær hver um sig sjö spil. Þegar fleiri en fjórir spila fær hver um sig sex spil.

Þegar búið er að gefa eru spilin sem eru eftir lögð á grúfu í stokk á miðju borði, milli spilaranna. Efsta spilið í stokknum er lagt til hliðar við hann, upp í loft, og byrjar kastbunkann.

Spilarar skiptast á að gefa eftir þetta.

Framgangur spilsins

Markmið rommís er að safna samstæðum og röðum. Samstæða er þrjú eða fleiri jafngild spil, t.d þrír gosar, fjórir tvistar eða þrjár níur. Röð er þrjú eða fleiri spil í röð í sama lit, t.d átta, nía og tía í spaða, eða ás, tvistur, þristur, fjarki og fimma í laufi. Munið að ásinn er lægstur.

Sá sem er í forhönd byrjar. Hann tekur upp spil og má það vera annað hvort efsta spilið úr bunkanum eða spilið úr kastbunkanum. Því næst leggur spilarinn upp í loft á borðið fyrir framan sig þær samstæður og raðir sem hann á og vill leggja upp. Hann getur líka valið um að safna þeim á hendina í staðinn. Að lokum kastar hann frá sér einu spili upp í loft í kastbunkann. Svona gengur þetta síðan koll af kolli. Annað hvort taka menn efsta spilið úr bunkanum eða efsta spilið í kastbunkanum. Þar næst eru lagðar niður raðir og samstæður, ef menn geta og vilja. Spilarar hafa einnig möguleika á því að bæta við spili í samstæðu eða röð eða mótherji hans hefur lagt niður og fær seinna meir stig fyrir það. Af þessum sökum getur fólk valið hvort það leggur niður spil jafnóðum eða hvort það leggur allt niður í einu í lokin. Spilari má leggja niður eins mörg spil og hann vill og getur lagt niður.

Ef stokkurinn klárast áður en spilið er búið er kastbunkanum snúið við án þess að hann sé stokkaður og er hann svo notaður sem nýr stokkur. Síðasta spilið sem var lagt niður verða þá að fyrsta spilinu í nýjum kastbunka.

Að ljúka spilinu og loka

Takmark hvers spilara er að loka spilinu. Það gerir spilari með því að leggja næstsíðasta spilið í samstæðu eða röð og kasta því síðasta í kastbunkann. Þegar hann gerir þetta er spilinu lokið.

Útreikningur

Þegar stig hvers og eins eru reiknuð út er ásinn reiknaður sem einn punktur, mannsspil sem tíu punktar og önnur spil eftir tölugildi þess, tvistur er t.d virði tveggja stiga og nían níu stiga.

Þegar spilar lokar spilinu og sigrar þar með fær hann stig sem eru jöfn samanlögðum punktafjölda spilanna sem mótherjarnir eiga eftir eftir á hendi. Ef mótherjinn hefur t.d níu, þrist, drottningu og kóng á hendi fær sigurvegarinn 32 stig frá honum o.s.frv.

Tveir valkostir eru í boði hvað varðar spilalok rommís. Annars má spila þar til einn spilari hefur náð tilteknum fjölda stiga, t.d 500 stigum og hins vegar má spila með spilapeninga. Greiðir þá hver mótherji sigurvegaranum jafn marga peninga og stigin eru sem hann hafði á hendi þegar sigurvegarinn lokaði.

Ef spilarinn sem lokar leggur út alla höndina í einu, án þess að hafa lagt niður eina einustu röð eða samstæðu er sagt að hann hafi náð rommí. Fær hann þá tvöfaldan fjölda stiga frá hverjum mótherja.

Góð ráð

- Það getur verið skynsamlegra að setja frekar há spil en lág í kastbunkann því þú vilt ekki sitja uppi með há spil ef mótherjinn lokar, þá fær hann svo mörg stig því hvert mannsspil jafngildir tíu stigum. Spilarinn sem situr hægra megin við þig gæti verið að hugsa á sömu lund ef þú skyldir loka og hendir af sér háum spilum. Ef þú sérð að svo er gæti verið sniðugt að halda í háa samsetningu sem bara hægt að bæta í á einn hátt í eina eða tvær umferðir en ekki mikið lengur en það.

- Stundum ertu með spil á hendinni sem þú veist að spilarinn til vinstri er á höttunum eftir. Hann hefur kannski tekið upp sexu úr kastbunkanum og þú ert með sexu sem þú ert ekki að nota. Þá er varasamt að henda henni í kastbunkann því hann gæti verið að safna sexum. Ef þetta gerist getur verið ráð að setja niður röð eða samsetningu eins fljótt og þú getur. Það gæti orðið til þess að mótherjar þínir leggi niður líka og þá áttu kost á því að leggja niður spil frá þér við samstæður eða raðir annarra spilara.

- Þar sem markmiðið er að safna spilum í röð og samstæður þarf maður að safna á hendina spilum sem gagnast í það. Fyrst þarf því að koma sér upp samsetningu sem getur orðið að samstæða eða röð þegar þriðja spilið bætist við. Spaða fimma og tígul fimma getur orðið að samstæðu þegar laufa fimma bætist við. Tígultvistur og spaðaþristur geta orðið að röð þegar hjartafjarki bætist við.

- Hafðu í huga að raðir eru misgóðar. Best er að safna röð sem hægt er að fylla inn í á tvo vegu. Í röðinni sem nefnd er að ofan er bara hægt að fylla í röðina þegar fjarkinn bætist við. Betra hefði verið að safna í röð sem samanstóð af t.d fjarka, fimmu og síðan sexu því þar var hægt að bæta í röðina á tvo vegu, annað hvort sexu eða þristi. Svo þarf einnig að hafa í huga hvaða spil hafa farið í kastbunkann.

- Betra er að safna spilum í raðir heldur en samstæður þar sem auðveldara er að fjölga upp í fjögur spil í röð heldur en í samstæðu. Í samstæðu er bara ein leið til þess að ná fjórum spilum en í röð má fylla í á tvo vegu, nema auðvitað að þetta sé endaröð.

- Allra best er að safna spilum sem gefa þér bæði möguleika á röð eða samstæðu. Ef þú átt t.d tvær sjöur og eina áttu geturðu bætt við þessa samsetningu með sexu, níu og tveimur fimmum. Þú getur myndað bæði röð og eins samstæðu úr sjöunum. Eitt spil verður að vísu gagnslaust en það er ansi gott að hafa um fjóra möguleika fyrir þrjú spil.

- Það getur verið varasamt að taka spil úr kaststokkinum til þess að mynda röð eða samstæðu. Ef þú tekur spil úr kaststokkinum ertu um leið að láta mótherjann vita að þetta er þér dýrmætt og hann hikar þá kannski við að henda frá sér öðru jafnháu spili eða spili sem er fyrir ofan eða neðan þetta. Betra er því að taka frekar spil úr stokkinum. Einna helst ættirðu að taka úr kaststokkinum ef þú ert með fáar samsetningar og spil úr kaststokkinum væri þér mjög mikils virði. Það myndi t.d tvöfalda samsetninguna þína.

Afbrigði

Eins og með svo mörg önnur spil spila ekki allir rommí eins. Sumir spila rommí þannig að ásinn er bæði hæstur og lægstur. Þá spila sumir rommí þannig að síðasta spilið þarf ekki að fara í kastbunkann heldur má það verða hluti raðar eða samstæðu. Ef spilið er spilað þannig gengur það hraðar fyrir sig.