Manni

3 spilarar

Spilagjöf

Notaður er venjulegur stokkur en tvisvarnir teknir úr honum. Dregið er um hver skuli gefa og gefur sá sem fær annað hvort hæsta spilið eða það lægsta, það er valfrjálst hvort er. Hver spilari á að fá tólf spil og eru gefin þrjú spil í einu, réttsælis. Gefið er í fjóra bunka en ekki þrjá og er fjórði bunkinn nefndur manni. Hann er til hægri við þann sem er í forhönd. Eftir þetta skiptast spilarar á að gefa.

Framgangur spilsins

Tvistarnir eru settir í einn bunka sem snýr upp í loft og er hjartatvisturinn efstur, síðan spaðatvisturinn, þá tígultvisturinn og að lokum laufatvisturinn. Litur þess spils sem er efst hverju sinni segir til um hvert trompið sé í þessum leik. Hjartað er því tromp eftir fyrstu gjöf. Í næstu gjöf er hjartatvisturinn tekinn og settur neðstur í bunkann og er þá spaði orðinn að trompi. Svona heldur þetta áfram, koll af kolli, meðan spilað er.

Eftir að búið er að gefa og áður en byrjað er að spila má sá sem er í forhönd skipta út sínum spilum fyrir mannann. Ef hann nýtir sér ekki þennan möguleika flystur rétturinn yfir á þann sem situr til vinstri við forhöndina og ef hann vill heldur ekki mannann má sá síðasti, gjafarinn, taka hann. Það má ekki kíkja á mannann áður en hann er tekinn.

Spilið byggir á því að taka sem flesta slagi. Sá sem er í forhönd leggur fyrstur út og síðan leggja hinir spilararnir í slaginn. Hæsta spilið í sortinni sem er í borði vinnur slaginn. Ekki má svíkja lit en eigi spilari ekki sortina sem er úti má hann leggja út hvaða spil sem er eða jafnvel trompa og taka þá slaginn. Hæsta tromp vinnur slaginn.

Útreikningur

Spilarar fá eitt stig fyrir hvern slag eftir að fjórum slögum hefur verið náð. Spilið heldur áfram þar til einn spilari eða fleiri ná tíu stigum. Sá sem fær flest stigin er sigurvegari.

Góð ráð

Þar sem stig reiknast ekki fyrr en slagirnir eru orðnir fleiri en fjórir er er sniðugt fyrir spilara að reyna að sjá til þess að slagirnir sem hann sjálfur getur ekki unnið dreifist jafnt á mótherja sína. Ef það verða t.d átta slagir sem mótherjarnir fá í einum leik og hvor fær fjóra slagi þá fær hvorugur neitt stig. En ef annar mótherja þinna fær þrjá slagi og hinn fimm slagi þá fær sá aðili sem hefur fimm slagi eitt stig. Þar sem spilinu lýkur þegar einhver nær tíu stigum getur það komið sér vel fyrir þig ef þú getur haft áhrif á það hver fær slag. Ef einhver er t.d nálægt því að fá tíu stig væri sniðugt að reyna að stýra því að hinn mótherjinn fái slaginn ef þú hefur ekki tök á því að fá hann sjálfur.

Aðrar Útfærslur